Öll okkar heimaframleiðsla er merkt. Hugsanlega velta einhverjir fyrir sér hvernig merkið er tilkomið og hvað það táknar. Hér kemur því smá skýring:

Frá því að land byggðist hefur tíðkast að skera í eyru nýfæddra lamba til að merkja þau. Ákveðið fjármark einkennir fé hvers bónda og þannig þekkir hann sínar kindur frá öðrum þegar réttað er á haustin. Fjármörk hafa í mörgum tilvikum verið lengi í sömu ætt og eru varðveitt sem ættargripur. Á Ytri Bægisá 2 hefur frá upphafi verið búið með sauðfé og fjármarkið okkar er „vaglrifa að framan, bíti að aftan“ á hægra eyra og „alheilt“ vinstra eyrað. Þannig var ákveðið að hafa þetta sem einkennismerki, ekki bara sauðfjárins, heldur næstum alls á bænum.