Jónas Hallgrímsson (16. nóvember 1807  – 26. maí 1845 ) var íslenskt skáld og náttúrufræðingur. Hann var afkastamikill rithöfundur, ljóðskáld og þýðandi og var einn af stofnendum tímaritsins Fjölnis.

Jónas var sonur Hallgríms Þorsteinssonar aðstoðarprests á Bægisá  og Rannveigar Jónasdóttur. Jónas missti föður sinn níu ára gamall,  var fermdur vorið 1821 heima í Öxnadal. Hann tók stúdentspróf í Bessastaðaskóla   árið 1829. Jónas hélt til Kaupmannahafnar til náms árið 1832. Hann lagði í fyrstu stund á lögfræði, en skipti síðar yfir í bókmenntir og náttúrufræði og er þekktur fyrir störf sín á þeim sviðum. Jónas fékk styrk úr ríkissjóði til rannsókna á náttúrufari Íslands og einnig til að að skrifa landlýsingu Íslands og vann að því verki árin 1839 – 1842. Hann ritstýrði  blaðið Fjölni, sem hann hafði stofnað ásamt nokkrum öðrum Íslendingum á námsárunum. Þar birti hann mikið af kvæðum sínum og ritgerðum. Auk þess stundaði hann þýðingar og meðal annars þýddi hann alþýðlega bók um stjörnufræði, sem var gefin út 1842, prentuð í Viðey.  Jónas fann upp mikinn fjölda( u.þ.b. 100) nýyrða, t.d. orðin rafmagn, sporbaugur, efnafræði, stuttbuxur, æðakerfi og stjörnuspá.

Hann lést 1845 í Kaupmannahöfn.

1946 voru beinin Jónasar fluttar heim til Íslands og  stóð kistan Jónasar í kirkjunni að Bakka í um viku áður en henni var ekið suður og var svo loks grafin í þjóðargrafreitnum  á Þingvöllum 16. nóvember 1946, sem var fæðingadagur Jónasar og hefur síðar hlotið heitið „Dagur íslenskrar tungu“.

Hér koma tvö af þekktustu ljóðum hans:

Ég bið að heilsa!

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Samið árið 1844.
Eiginhandarrit er varðveitt í Árnastofnun í handritasafni Konráðs Gíslasonar (KG 31 b IV ).
Frumprentun í: Fjölnir 7. ár, 1844.

Ísland, farsælda frón

Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
Þá komu feðurnir frægu og frjálsræðishetjurnar góðu,
austan um hyldýpishaf, hingað í sælunnar reit.
Reistu sér byggðir og bú í blómguðu dalanna skauti;
ukust að íþrótt og frægð, undu svo glaðir við sitt.
Hátt á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþingið feðranna stóð.
Þar stóð hann Þorgeir á þingi er við trúnni var tekið af lýði.
Þar komu Gissur og Geir, Gunnar og Héðinn og Njáll.
Þá riðu hetjur um héröð, og skrautbúin skip fyrir landi
flutu með fríðasta lið, færandi varninginnn heim.
Það er svo bágt að standa’ í stað, og mönnunum munar
annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.
Hvað er þá orðið okkart starf í sex hundruð sumur?
Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?
Landið er fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið er skínandi bjart.
En á eldhrauni upp, þar sem enn þá Öxará rennur
ofan í Almannagjá, alþing er horfið á braut.
Nú er hún Snorrabúð stekkur, og lyngið á lögbergi helga
blánar af berjum hvurt ár, börnum og hröfnum að leik.
Ó þér unglingafjöld og Íslands fullorðnu synir!
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!